Félagsheimili

FÉLAGSHEIMILI m/ VIRKNI OG STUÐNIGNSÚRRÆÐI er það sem Kærleikssamtökin eru að vinna í að koma á laggirnar með söfnunarátaki veturinn 2022-23. Í húsnæðinu er stefnt á að hafa afgreiðslu, skrifstofu, viðtalsherbergi, sal, eldhúsi og rými fyrir starfsdeildir. Aðaláherslan verður að fyrirbyggja og rjúfa félagslega einangrun hjá einstaklingum sem leitast eftir því og gerast félagsmenn.

VIRKNI OG STUÐNIGNSÚRRÆÐI er hvarvetna notað í starfi Kærleikssamtakanna. Sama er, undir hvaða deild einstaklingur fær aðstoð, þá byggir aðstoðin á samstarfi sem snýst um að virkja og styðja einstaklinginn í gegnum aðstæður sínar, til meira jafnvægis og til betra lífs. Hver einstaklingur fer á sínum hraða, getur þurft meiri aðstoð í byrjun sem smátt og smátt dregur úr þegar viðkomandi styrkist og verður færari um að takast á við og koma sér í gegnum aðstæður dagslegs lífs.

Á félagsheimilinu gefst félagsmönnum færi á að komast á félagsfundi og í félagsstarf. Þannig er hægt að fyrirbyggja og/eða rjúfa félagslega einangrun og með tímanum byggja upp félagslega færni og tengsl. Aðstoð Kærleikssamtakanna er einnig að byggja aftur upp samskipti við vini og ættingja. Félagsmenn fá einnig tækifæri til að taka að sér verkefni eða koma eigin verkefnum af stað.

Nánar um virkni- og stuðningsúrræði Kærleikssamtakanna:

Úrræði Kærleikssamtakanna byggir á virkni sem snýr að daglegri rútínu, aga, persónulegri nálgun, að skoða hegðun sína út frá hugsunum, tilfinningum, stöðu sinni, stuðningsneti, umhverfi og áföllum.

Á meðan farið er í gegnum þessa þætti þá er stuðningur til staðar frá Kærleikssamtökunum. Stuðningurinn fellst í því að aðstoða einstakling til að nálgast hindranir í lífi sínu og þá þætti sem hafa komið sér í ójafnvægi sem hefur leitt af sér erfiðleika í lífinu. Einnig til að nálgast áföll og leyta sér í framhaldi meðferðar hjá 3ja aðila.

Stuðningurinn fellst einnig í því að fara  með einstaklingi í viðtöl, sækja um það sem þarf, halda utan um umsóknir eða annað sem hver þarf að gera. Þannig er einstaklingurinn ekki einn að sjá um sín mál heldur hefur stuðningsaðila til að fara með sér í gegnum ferlið sem þarf að eiga sér stað til að viðkomandi geti komið sjálfum sér í jafnvægi.

Bæði stuðningurinn og virkniúrræðið felur í sér þátttöku einstaklings eftir getu hverju sinni.

Það er misjafnt hvað við eigum auðvelt með að gera og hvað er okkur ofviða. Stuðningurinn felst í því að aðstoða við það sem er erfitt að gera til að ná árangri þar. Kvíði er ein mesta hindrun fyrir því að ná ekki að gera það sem við þurfum að gera.

Kvíði byggir á ótta sem getur valdið því að einstaklingur er ófær um að gera vissa hluti, en getur á móti verið meðvirkur, t.d. af ótta við höfnun. Þannig nær einstaklingur ekki að gera greinarmun á styrkleikum og veikleikum sínum svo ójafnvægi skapast í hugsun, tilfinningum og hegðun.

Þarna er til staðar óvissuástand um sjálfa/-n sig, hugsanir sínar, tilfinningar sínar, hegðun sína og getu til að takast á við áföll sem hver hefur lent í og ekki unnið með. Áföll í lífinu valda geðrænu ástandi sem margir festast í. Áfall getur verið löngu liðið hjá en einstaklingur er fastur í ástandinu sem það olli.

Kvíði getur leitt til þunglyndis og margs konar fælni og frestunar á að gera hluti sem gagnast okkur. Þannig hamla kvíði – ótti – meðvirkni – óvissa – þunglyndi og öll önnur geðræn áhrif – framför okkar og möguleika á að vera í jafnvægi, ná fótfestu og getu til að nota styrkleika okkar til fulls á öllum sviðum lífsins. Að auki getur slíkt geðrænt ástand valdið líkamlegum kvillum svo færni okkar skerðist.

Til að virkniúrræðið og stuðningurinn nýtist þá þarf einstaklingur að vilja nálgast sig, vilja skoða sitt ójafnvægi og vera tilbúin að vinna með sjálfa/-n sig. Að vera tilbúin að vilja – er fyrsta skrefið.

Virkniúrræði og stuðningur Kærleikssamtakanna er góð byrjunarleið til að komast á þann stað að geta í framhaldi leitað sér meðferðar sem þörf er á. Að auki gefur það einstaklingi færi á að fara í gegnum þetta nálgunarferli með stuðningi og utanumhaldi – til að halda uppi sýn á því hvaða skref er raunhæft að taka hverju sinni. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að einstaklngur fari of geyst í bataferli eða sé að spóla í sama farinu. Virkniúrræðið nýtist einnig samhliða öðrum úrræðum/meðferðum.

Þessi nálgun Kærleikssamtakanna felur það í sér að hver einstaklingur fer á sínum hraða til að nálgast sjálfa/-n sig. Málin eru rædd og tekið er mið af því hvað kemur upp hjá hverjum og unnið er út frá því.

Til að ná markmiði – þarf hver og einn að skilja og geta nálgast þær hindranir sem eru til staðar. Ef við erum ekki með neitt sem hindrar okkur til að ná markmiði – þá þurfum við ekki stuðning eða meðferð til að ná markmiðinu. Svo sama hvert markmið okkar er – þá er fyrsta skrefið að meta hvort við getum náð því sjálf eða hvort við þurfum aukna þekkingu, stuðning, endurhæfingu eða meðferð til þess.

♥     ♥     ♥

VILLT ÞÚ STYRKJA STARF KÆRLEIMSSAMTAKANNA:

Ef þú villt styrkja starf og úrræði Kærleikssamtakanna þá er hægt að velja úr styrktarleiðum sem eru kynntar hér.

Fyrir fyrirspurnir er hægt að fylla út hafa samband eða senda tölvupóst á netfangið kls@kaerleikssamtokin.is.

♥     ♥     ♥

TILGANGUR FÉLAGSINS

Tilgangur og markmið félagsins er að gæta hagsmuna og reka félagsstarf fyrir einstaklinga sem eru félagslega einangraðir vegna fátæktar, heimilisleysis og áfalla,  með áherslu á jaðarsetta og viðkvæma hópa í þjóðfélaginu.

♥     ♥     ♥