LÖG KÆRLEIKSSAMTAKANNA almannaheillafélag (fta)

Nafn:
1. gr. Félagið heitir Kærleikssamtökin fta.
Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

Tilgangur og Markmið félagsins:
2. gr. Tilgangur og markmið félagsins er að gæta hagsmuna og reka félagsstarf fyrir einstaklinga sem eru félagslega einangraðir vegna fátæktar, heimilisleysis og áfalla,  með áherslu á jaðarsetta og viðkvæma hópa í þjóðfélaginu.

Markmið til að ná tilgangi félagsins, eru að:

  • Starfa í þágu íslenskumælandi íslenskra ríkisborgara.
  • Vera vettvangur fyrir félagsmenn.
  • Vera með félagstarf, virkni- og stuðningsúrræði fyrir félagsmenn.
  • Vera með forvarnarstarf til að fyrirbyggja og rjúfa félagslega einangrun.
  • Vera með fræðsluefni og vinnustofur fyrir félagsmenn.
  • Skapa þannig tækifæri að uppbyggjandi og langvarandi lausnum fyrir félagsmenn.

  • Stuðla að jákvæðum mannlegum samskiptum við og milli félagsmanna.
  • Styðja félagsmenn til að sækja sér meðferðar og/eða nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu eftir þörfum.
  • Miðla uppbyggjandi, efnislegum og andlegum aðferðum sem hægt er að nota í daglegu lífi án trúarskoðana.

Kærleikssamtökin starfrækja 7 deildir sem tengjast tilgangi og markmiðum félagsins:
Deild 1. Bækurnar. Deild 2. Ég er þessi virði. Deild 3. Fangar í nýju ljósi. Deild 4. Félagsheimili. Deild 5. Kærleikssveitin. Deild 6. Mannréttindi. Deild 7. Réttur til heimilis.

Hver deild byggir á almannaheillaþætti sem getur haft mikla þýðingu fyrir jaðarsetta og viðkvæma hópa og þjóðfélagið í heild. Samanlagt kallar starf deildanna fram víðtæk áhrif fyrir félagsmenn, stuðla að varanlegu úrræði, fyrirbyggja og rjúfa félagslega einangrun, ýta undir virkni og að félagsmenn nýti sér stuðning, með það markmið að geta lifað sæmandi lífi.

Tekjur og ráðstöfun:
3. gr. Kærleikssamtökin eru óhagnaðardrifin félagasamtök, skráð sem almannaheillafélag og er öllum hagnaði félagsins varið í daglegan rekstur þess og verkefni á sviði forvarnar- og mannúðarstarfs.

Fjármögnun:

a) Gjafir / Framlög / Styrkir.
b) Basarsala / Merkjasala / Styrktarsala.
c) Leigutekjur vegna áfangaheimila.
d) Félagsgjöld.
e) Framlög (sala) vegna útgefinna bóka.
f) Útleiga á sal í félagsheimili.

Ráðstöfun fjármuna:

  • Félagsheimili.
  • Áfangaheimili.
  • Félagsstarf.
  • Forvarnarstarf.
  • Fræðsluefni.
  • Virkni- og stuðningsúrræði.
  • Skrifstofu og afgreiðslu.
  • Hugbúnað, vefsíðu, bókhald.
  • Vinnustofur og verkefni innan félagsins.

Stjórnarskipulag:
4. gr. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga og lagt fyrir kosin endurskoðunarmann, -fyrirtæki, skoðunarmann eða trúnaðarmann félagsins eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.
Stjórn félagsins skal skipuð formanni, tveim meðstjórnendum og einum varamanni.  Formaður skal kosin til fimm ára í senn. Meðstjórnendur og varamenn skulu kosnir til tveggja ára í senn.

Störf stjórnar-, trúnaðar- og félagsmanna hjá Kærleikssamtökunum eru ólaunuð nema annað sé ákveðið á stjórnarfundi af meirihluta stjórnar.

Stjórnarmenn félagsins, trúnaðarmaður og varamaður trúnaðarmanns mega ekki sitja í nefndum, í stjórn stjórnmálaflokka eða í stjórn annarra félagasamtaka á sama tíma.

Framboð til stjórnar skal auglýst til umsóknar af stjórn félagsins 1-3 mánuðum fyrir aðalfund og skulu frambjóðendur samþykktir af meirihluta stjórnar fyrir auglýstan aðalfund. 

Eingöngu félagsmenn eiga atkvæðisrétt í félaginu.

Lokaðir félagsfundir fyrir félagsmenn, skulu vera þrír talsins, einn á einum ársfjórðungi á milli aðalfunda. 

Til lokaðra félagsfunda skal boða með minnst 5 daga fyrirvara með sannanlegum hætti. Félagsfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Til félagsfunda skal boðað með sms tilkynningu, tölvupósti og auglýsingu á vefsíðu félagsins.

Aðalfund skal halda innan sex mánaða frá lokum reikningsárs ár hvert (jan-júní) og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Til aðalfundar skal boðað með sms tilkynningu, tölvupósti og auglýsingu á vefsíðu félagsins.

Formaður boðar til félags- og aðalfunda.

Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. 

Á aðalfundi skal kjósa endurskoðunarmann eða endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmann og/eða trúnaðarmann og varamann trúnaðarmanns úr hópi félagsmanna til tveggja ára í senn. Mega þeir aðilar ekki sitja í stjórn félagsins né gegna störfum stjórnar.

Félagsaðild:
5. gr. Aðild að félaginu hafa:

a) Einstaklingar sem eru með áfallasögu vegna eftirfarandi þátta:

      • fátækt,
      • heimilisleysi,
      • búa í bíl eða inn á öðrum,
      • óreglu,
      • langtíma dvöl á áfangaheimilum,
      • fangelsi,
      • geðrænt ójafnvægi,
      • ná ekki fótfestu í lífinu og eru þannig félagslega einangraðir.

Aðilar nýta sér virkni- og stuðningsúrræði félagsins og taka þátt í félagsstarfinu eftir fremsta megni með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.

b) Nánasti aðstandandi, vinur, stuðningsmaður félagsmanns með velferð hans að  leiðarljósi.

Aðilar a) og b) liðar greiða félagsgjald með mánaðarlegum/reglulegum millifærslum í banka.

Aðrir sem vilja leggja félaginu lið eru sjálfboðaliðar og styrktaraðilar og teljast ekki félagsmenn.

Einstaklingar, fyrirtæki, félög, sjóðir og sjálfseignarstofnanir sem vilja koma að starfseminni með uppbyggjandi hætti gera samstarfssamning við Kærleikssamtökin og teljast ekki félagsaðilar.

Með samstarfssamningum er stuðlað að samvinnu við einstaklinga, fyrirtæki og félög, stofnanir og stjórnmálaflokka sem vinna að uppbyggjandi úrræðum.

Ef félagsmaður skv. a) lið segir sig úr félaginu eða fellur frá þá breytist aðild aðstandanda hans úr b) lið, í sjálfboðaliða eða styrktaraðila svo fremi sem viðkomandi vill halda áfram að leggja félaginu lið.

Stjórnin sér um skráningu umsókna um félagsaðild á þar til gerðu eyðublaði.

Stjórnin sér um sjálfboðaliða og samstarfssamninga.

Stjórn félagsins fer yfir, samþykkir eða hafnar umsóknum um félagsaðild og heldur skrá yfir félagsmenn.

Ef umsókn er hafnað ber stjórninni að rökstyðja höfnunina og hefur umsóknaraðili 30 daga til að koma með skýringar eða viðbótar upplýsingar. Umsóknaraðili á rétt á því að skjóta ákvörðun um höfnun til atkvæðisgreiðslu á félagsfundi sbr. í 8. gr. laga nr. 110/2021 um brottvísun.

Aðild í félagið hefst þegar skráning er samþykkt og tekur gildi þann 1. næsta mánaðar.

Úrsögn úr félaginu þarf að berast skriflega og tekur gildi 1. næsta mánaðar eftir síðustu greiðslu.

Um brottvísun úr félaginu gildir 8. gr. Brottvísun úr félagi og IX. Kafli Viðurlög í lögum  nr. 110/2021, auk þess vegna vanvirðingar og misnotkunar á samþykktum félagsins. Ákvörðun um brottvísum má taka á stjórnarfundum og lokuðum félagsfundum og hefur félagsmaður 30 daga til að leggja fram andmæli.

Félagsgjöld – önnur gjöld:
6. gr. Á þar til gerðu eyðublaði er félagsaðild skráð og virkjast við samþykki stjórnar. Árgjald 12.000 kr. greiðist mánaðarlega með beingreiðslusamningi í banka.

Samþykkt skráning í félagið opnar strax fyrir mætingu á lokaða félagsfundi.

Ef eigi er greitt á milli 1-31 dags mánaðar, fyrir þann mánuð, fellur félagsaðildin úr gildi. Ef greitt er í næsta mánuði byrjar réttur til atkvæðagreiðlsu á félagsfundi að telja upp á nýtt. Stjórnin getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu og/eða öðrum gjöldum.

Önnur gjöld geta verið á félags- og áfangaheimilum sem félagið starfrækir eða kemur að með starfi sínu.

Félagsfundir:
7. gr. Rétt til setu á lokaða félagsfundi hafa skráðir félagsmenn.

Á lokuðum félagsfundum leggja félagsmenn fram og kjósa um tillögur, hugmyndir og beiðnir sem þeir vilja að séu teknar til skoðunar af hálfu stjórnar.

Unnið er að því með samvinnu að skoða áhrif tillagna, hugmynda og beiðna, vega og meta kosti og galla áður en ákvörðun er tekin um að innleiða þær í félagið eða útfæra sem verkefni.

Stjórnin getur lagt mál fram til kosningar á félagsfundi.

Á félagsfundum eiga félagsmenn að geta talað frjálst um sín mál og félagsins.

Trúnaður á að ríkja milli félagsmanna.

Dagskrá lokaðra félagsfunda skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Upplýsingar um verkefni stjórnar og framvindu þeirra lagðar fram.
  3. Opnar umræður og atkvæðisgreiðsla um tillögur, hugmyndir og beiðnir.
  4. Fundarritari færir tillögur, hugmyndir, beiðnir og ákvarðanir á fundi til bókar.
  5. Fundarstjóri og tveir kosnir fundarmenn fara yfir fundargerð og samþykkja með undirskrift sinni.

Atkvæðisréttur á félagsfundum:
8. gr. Rétt til atkvæðagreiðslu á lokaða félagsfundi, hafa félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald sitt mánaðarlega síðustu 3 mánuði.

Atkvæðisréttur nýs félagsmanns tekur gildi í 3ja mánuði eftir skráningu, t.d. ef skráning fer fram í janúar þá virkjast atkvæðisrétturinn í mars.

Einfaldur meirihluti mættra og atkvæðisbærra félagsmanna ræður úrslitum mála sem einskorðast við tillögur, hugmyndir og beiðnir til stjórnar.

Þá fer það eftir eðli þeirra hvort endanlegar ákvarðanir séu teknar á næsta félagsfundi, eftir umræður um hvort þær komi félaginu og félagsmönnum til góða. Ákveðnir liðir eru eingöngu teknir fyrir á aðalfundi sjá 9.gr.

Aðalfundir:
9. gr. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi.

Rétt til setu á aðalfundi teljast þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald mánaðarlega síðastliðna 3 mánuði fyrir auglýstan aðalfund.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram til umræðu.
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
  4. Lagabreytingar.
  5. Ákvörðun félagsgjalds.
  6. Kosning stjórnar.
  7. Kosning endurskoðanda, skoðunarmanna og/eða trúnaðarmanna.
  8. Önnur mál.

Atkvæðisréttur á aðalfundum:
10. gr. Rétt til atkvæðisgreiðslu á aðalfundi teljast þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald mánaðarlega síðastliðna 6 mánuði fyrir auglýstan aðalfund (3 mánuðir árið 2022).

Einfaldur meirihluti mættra og atkvæðisbærra félagsmanna ræður úrslitum mála á aðalfundi, nema er varða lagabreytingar félagsins, þá þarf atkvæði 2/3 félagsmanna með atkvæðisrétt auk atkvæði meirihluta stjórnarmanna. Hér gilda atkvæði stjórnarmanna ekki sem atkvæði félagsmanns.

Leyfilegt er að stjórnarmenn geti mætt á aðalfund með rafrænum hætti, þ.e. í mynd og hljóði, og lagt fram atkvæði sitt munnlega.

Stjórn:
11. gr. Stjórnin skiptir með sér verkum og fer með málefni félagsins á milli aðalfunda.

Stjórnarfundir eru haldnir að öllu jöfnu mánaðarlega.

Meirihluta stjórnarmanna ræður úrslitum á stjórnarfundum.

Stjórn félagsins færir bókhald þess með aðstoð bókhaldsstofu.Stjórn félagsins ritar firma þess.

Formaður er prókúruhafi og ábyrgur fyrir rekstri félagsins.

Stjórn félagsins hefur leyfi til ákvarðanatöku á stjórnarfundum, um mál sem ekki er unnt að leggja fyrir félags- eða aðalfund, svo fremi sem þær tryggi hagsmuni félagsins og félagsmanna í samræmi við samþykktir þessar sbr. 1 mgr. 12 gr. 110/2021.

Að öðru leyti gildir V. kafli í lögum 110/2021 um stjórnun félags.

Slit félagsins:
12. gr. Ákvörðun um slit félags skal taka á aðalfundi með 2/3 hluta félagsmanna og öllum  stjórnarmönnum. Hér gilda atkvæði stjórnarmanna ekki sem atkvæði félagsmanns.

Við slit félagsins skal ráðstafa eignum þess til;

  • starfandi óhagnaðardrifins félags,
  • sem starfar með skýrum hætti á sviði
    • mannúðar- og/eða forvarnarstarfs,
    • geðheilbrigðismála og/eða
    • sem tryggja úrræði til almannaheilla fyrir jaðarsetta og viðkvæma hópa í lægstu þrepum þjóðfélagins.

Stjórnin leggur fram lista með félögum sem falla undir ofangreind skilyrði og verður þá valið af honum með atkvæðagreiðslu.

Að öðru leyti gildir VI kafli í lögum 110/2021 um slit félags.

Annað:
13. gr. Þar, sem ákvæði þessa samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

Ef trúnaðarmaður og varamaður trúnaðarmanns eru kosnir úr hópi félagsmanna á aðalfundi þá gildir eftirfarandi:

Trúnaðarmaður hefur aðgang að fundargerðum stjórnar, hann situr stjórnarfundi að hluta til eftir beiðni hans eða stjórnar.

Varamaður trúnaðarmanns starfar undir stjórn trúnaðarmanns og skv. ákvæðum þessum.

Trúnaðarmaður og varamaður hans eru milligönguaðilar milli félagsmanna og stjórnar.

Trúnaðarmaður og varamaður hans halda utan um starfið á félagsfundum samkvæmt uppsetningu og þátttöku á félagsfundum og fá félagsmenn með sér í tilfallandi störf á fundum og verkefni innan félagsins. 

Trúnaðarmaður og varamaður hans starfa samkvæmt siða- og verklagsramma félagsins og taka á ákveðnum þáttum samkvæmt áætlun um öryggi og heilbrigði og öðru verklagi.

Félagið hefur leyfi til að taka við frjálsum framlögum, en einnig að hafna þeim ef ástæða þykir til.

Félagið starfar sjálfstætt og er óháð öðrum félagsskap.

Félagið heldur sig utan við baráttu, mótmæli og aðrar athafnir sem eiga að knýja fram breytingar.  Þess í stað leggja þau áherslu á að beina athyglinni að því að skoða og ræða það sem miður hefur farið og aðstoða við uppbyggingu varanlegra lausna, fyrir einstaklinga jafnt og heildina, út frá efnislegu og andlegu sjónarhorni.

Félagsmönnum og stjórnarmönnum félagsins sem taka þátt í baráttumálum og mótmælum á öðrum vettvangi er með öllu óheimilt að gera það á vegum eða í nafni Kærleikssamtakanna.

Nýjastu breytingar á samþykktum/lögum félagsins voru samþykktar þann 20.10.2023.

Formaður:                           Sigurlaug Guðný Ingólfsdóttir
Meðstjórnendur:            Sigurlaug Waage Guðmundsdóttir
                                                   Ólafur Fjeldsted
Varamaður:                        Soffía Sigríður Karlsdóttir
Skoðunarmaður:             Árni Þór Hlynsson 

♥     ♥     ♥